Skilmálar

Kass er smáforrit í boði Íslandsbanka sem gerir notendum kleift að að senda, rukka og taka á móti greiðslum frá vinum og öðrum Kass notendum ásamt ljósmyndum og skilaboðum sem þeim fylgja. Auk þess getur notandi stofnað viðburð i gegnum app í þeim tilgangi að rukka og taka á móti greiðslum frá vinum og öðrum Kass notendum.


Sem notandi Kass, getur þú búið til þinn eigin tengiliðalista með því að senda vinabeiðni á aðra eða samþykkja vinabeiðni frá öðrum notendum án þess að stofna til greiðslu eða greiðslubeiðni. Jafnframt, getur þú boðið vinum að tengjast þér í kerfinu í gegnum Facebook eða með símanúmeraskránni á þínu símtæki.

1. Samþykki notkunarskilmála Kass

Við hvetjum notendur til að lesa þessa skilmála og kynna sér þá vandlega áður en aðgangur er stofnaður í Kass. Með því að stofna aðgang og nota þjónustu Kass samþykkir þú að hlíta þessum skilmálum í hvívetna. Öll notkun þjónustu Kass takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist og þær upplýsingar og þá þjónustu sem í boði eru á hverjum tíma. Notendur Kass geta ávallt nálgast skilmála þessa á vefsíðu Kass. Þú ættir einnig að vista afrit af þessum skilmálum áður en þú heldur áfram lestri.

2. Hugtök

„App” merkir snjallsímaforritið Kass sem þú þarft að hafa hlaðið niður og sett upp á símann þinn til þess að geta nýtt þér þjónustu Kass.
„Notendaaðgangur” merkir þann aðgang sem þú hefur stofnað með því að skrá þínar upplýsingar.
„Gjöld" merkir þau þjónustugjöld sem að leggjast ofan á greiðslur þegar greitt er með greiðslukorti. Nánari upplýsingar um gjöld má finna á vefsvæði Kass undir „Verðskrá”.
„Greiðslubeiðni” er beiðni til annarra notenda um að senda greiðslu. Með greiðslubeiðni er tilgreint hver á að greiða hvaða fjárhæð og til hvaða notanda. Með því að samþykkja greiðslubeiðni, fer færslan af stað um leið.
„Borgun” er færsluhirðirinn Borgun ehf. sem sér um færsluhirðingu fyrir þjónustu Kass.
„Bankareikningur” merkir bankareikning sem þú tengir við Kass.
„Notandi” eða „þú”merkir þann aðila sem stofnað hefur Kass aðgang samkvæmt þessum notkunarskilmálum.
„Við” merkir Kass eða Íslandsbanki.

„Viðurkenndur notandi“ merkir félag eða félagasamtök, sem ekki hafa hefðbundna atvinnustarfsemi/rekstur með höndum og uppfylla skilyrði umsóknar til þess að teljast viðurkenndur notandi í Kass.


“Vefsíða” merkir vefsíða Kass,
www.Kass.is

„Lokaður viðburður“ merkir viðburð sem notandi getur stofnað í appi og er ekki sýnilegur öðrum en þeim sem boðið hefur verið að taka þátt í viðburði eða þeim sem hafa fengið sendan tengil á viðburð. Notandi getur valið um að stilla viðburðinn þannig að allir hafi aðgang að upplýsingum um hverjum hafi verið boðið að taka þátt í honum og hverjir hafi tekið þátt og hversu mikið þátttakendur hafa greitt til viðburðar.

„Opinn viðburður“ merkir viðburð sem notandi getur stofnað í appi og er sýnilegur öllum notendum apps auk þess að vera öllum sýnilegur á viðburðarsíðu. Notandi getur valið um að stilla viðburðinn þannig að allir hafi aðgang að upplýsingum um hverjum hafi verið boðið að taka þátt í honum og hverjir hafi tekið þátt og hversu mikið þátttakendur hafa greitt til viðburðar.

 

„Viðburðarsíða“ merkir vefsíðu  sem heldur utan um viðburði og hefur að geyma nánari upplýsingar um viðburði. Á viðburðarsíðu getur notandi séð upplýsingar um lokaða viðburði sem honum hefur verið boðið að taka þátt í eða fengið sendan hlekk á, auk upplýsinga um opna viðburði.   

„Hámarkssöfnunarfé“ merkir hámarks fjárhæð sem hægt er að safna á viðburði og tilgreint er á viðburðarsíðu.

3. Notendaskilyrði

Til að geta nýtt sér þjónustu Kass, verður þú að:

  • Vera skráð/ur fyrir íslensku símanúmeri. 
  • Stofna notendaaðgang í samræmi við innskráningarferlið í appinu.   
  • Ekki brjóta í bága við nein atriði í þessum notkunarskilmálum eða hafa stofnað reikning áður sem hefur verið lokað af Kass vegna brota á notkunarskilmálum þessum.
  • Nota þjónustuna einungis með greiðslukortum (debit/kredit) eða bankareikningum sem eru gefin út af íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Án leyfis, er þér ekki heimilt að opna fleiri en einn reikning og Kass áskilur sér rétt til þess að loka einhverjum eða öllum af þeim reikningum sem notandi á, ef sennilegt þykir að sami notandi sé á bakvið marga reikninga.

Ef sá sem á að taka á móti greiðslu er ekki Kass-notandi er hægt að senda skilaboð á símanúmer móttakandans. Þá hefur viðkomandi 5 daga til að sækja Kass og fá greiðsluna inná sinn reikning. Ef viðkomandi sækir ekki Kass fer greiðslan til baka.

4. Kass notandi

Til að gerast notandi, verður þú að stofna aðgang með því að skrá þær upplýsingar sem krafist er við innskráningu í appinu.

Notandi verður að vera skráður fyrir gildu innlendu símanúmeri til þess að gerast notandi. Þú ábyrgist að þú munir ekki gefa upp rangar, ónákvæmar eða villandi upplýsingar. Þú mátt ekki gefa upp upplýsingar um nafn, bankareikning eða greiðslukort sem þú hefur ekki leyfi til að nota.

Þér ber samstundis að uppfæra upplýsingar um þig í appinu ef nafn, netfang, símanúmer, greiðslukort eða bankareikningur breytist. Kass áskilur sér rétt til að takmarka notkun eða notkunareiginleika þjónustunnar þar til þú hefur auðkennt þig á sannfærandi hátt og staðist öryggisskoðun og sannprófun og/eða þar til þú hefur veitt umbeðnar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti.

Við lítum svo á að sá/sú sem auðkennir sig með réttu lykilorði eða með notkun fingrafaraskanna sé hinn sanni eigandi notendaaðgangs og hafi heimild til að framkvæma aðgerðir með appinu. Eigandi ber ávallt fulla ábyrgð á öllum aðgerðum sem staðfestar hafa verið með ofangreindum hætti.

Ef þú hefur grun um að lykilorði þínu, öryggisnúmeri, fingrafari eða öðrum öryggisupplýsingum gæti hafa verið stolið eða grunur liggur á að slíkar upplýsingar séu notaðar án þíns leyfis, ættir þú að breyta lykilorðinu og hafa samband við okkur um leið.

5. Notkun á Kass reikningi

5.1 Að stofna aðgang
Með því að stofna aðgang, getur þú:

  • Millifært af debet/kreditkorti   
  • Sent greiðslubeiðnir til vina þinna
  • Stofnað viðburð
  • Greitt útistandandi greiðslur. Skilyrði er að þú veitir þær upplýsingar sem beðið eru um, auk þess þarftu að standast allar auðkennis- og öryggisathuganir.

5.2 Heimildir
Við hvetjum notendur til að kynna sér verðskrá Kass sem er aðgengileg á vefsíðu Kass. Allur kostnaður við notkun þjónustunnar kemur fram í
verðskránni. Verðskráin getur tekið breytingum og er sú verðskrá sem birt er á vefsíðu Kass í gildi hverju sinni. Verðskráin er einnig aðgengileg í gegnum Appið. Miðað er við að allar breytingar á verðskrá séu tilkynntar á vefsíðu Kass 30 dögum fyrir gildistöku.

5.3 Öryggisúttektir og sannprófun á auðkenni
Sem notandi samþykkir þú að ólík verkfæri frá þriðja aðila kunni að vera notuð til að framkvæma öryggisathuganir við framkvæmd aðgerða sem þú hefur staðfest, ásamt því að þú samþykkir að veittar séu allar upplýsingar sem beðið er um í slíkum athugunum.

5.4 Að eyða reikningi og uppsögn þjónustu
Þú hefur rétt til að loka aðgangi þínum að eigin ósk, hvenær sem er, með því að hafa samband. Sjá „Hafa samband” á vefsíðu Kass. Millifærslur sem hafa verið skráðar áður en ósk um lokun berst Kass, ásamt gjöldum sem þeim fylgja, verða ekki bakfærðar við lokun reiknings.

Að loka reikningi sínum þýðir ekki að gögnum sem honum eru tengd verði eytt, heldur verða þau geymd í a.m.k. fimm ár eftir lokun á aðgangi. Ef þú lokar aðgangi þínum, muntu ekki lengur geta nýtt þér þjónustu Kass.

Við áskiljum okkur rétt til að segja upp þessum samningi við þig fyrirvaralaust og loka aðgangi þínum ef þú:

  • Ferð, að okkar mati, ekki eftir þessum skilmálum.
  • Ferð ekki að fyrirmælum okkar við notkun þjónustunnar, þar með talið hverskonar viðmiðum eða takmörkunum sem við setjum.
  • Brýtur ítrekað þessa notkunarskilmála.  
  • Ert á einhvern hátt ógnandi við starfsfólk, fulltrúa Kass eða aðra notendur.
  • Ef fyrirséð er að þú getir ekki greitt fyrir þjónustuna. 
  • Ert óvirkur notandi í lengri tíma en tólf mánuði.

Okkur er heimilt að banna, takmarka eða loka fyrir aðgang þinn ef:

  • Greiðsla og/eða viðburður stangast á við lög, allsherjarreglu og/eða almennt siðgæði.
  • Við höfum áhyggjur af öryggi þíns aðgangs.
  • Okkur grunar að aðgangur þinn sé notaður af óviðkomandi aðila eða á saknæman hátt.
  • Okkur er eða verður það skylt samkvæmt fyrirmælum laga, eftirlitsaðila eða dómstóla.

Ef það kemur til slíkrar aðgerðar munum við upplýsa þig um það eins fljótt og auðið er, annað hvort áður eða strax á eftir að aðgangi hefur verið lokað ásamt því að upplýsa um ástæður fyrir lokuninni nema við teljum það vera ólöglegt eða vinna gegn öryggisráðstöfunum.

Við áskiljum okkur rétt til að eyða út öllum viðburðum sem stofnaðir eru í Kass.

Við áskiljum okkur einnig rétt til að segja upp þessum notkunarskilmálum og loka aðgangi þínum samstundis ef grunur leikur á að aðgangur þinn sé notaður af þér eða öðrum í saknæmum tilgangi.

Við áskiljum okkur rétt til að breyta virkni og/eða hætta að bjóða þjónustu Kass hvenær sem er án sérstakra skýringa. Komi til þess að þjónustu Kass verði hætt, verður notendum tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara.

5.5 Ágreiningur á milli notenda

Ef einhver ágreiningur verður á milli þín og annarra notenda í samskiptum eða viðskiptum þar sem þjónusta Kass hefur verið nýtt við millifærslur, ber þér að ná sáttum beint við þann aðila. Kass ber ekki ábyrgð á ágreiningi á milli aðila sem nota þjónustuna og tekur ekki að sér nokkra milligöngu vegna slíks ágreinings.

6. Aðrar skyldur notenda

Þér er óheimilt að taka þátt í einhverju af eftirfarandi:

  1. Að nota þjónustu Kass til að ná í fjármuni af öðru greiðslukorti en þínu eigin, öðrum bankareikningi en þínum eigin, eða til að ná í fjármuni eða færa fjármuni með óheiðarlegum eða saknæmum hætti (eða að aðstoða aðra við að gera slíkt);
  2. Að nota þjónustu Kass á einhvern hátt sem brýtur gegn lögum, þ.m.t. er varðar peningaþvætti, svik eða glæpastarfsemi.
  3. Að eiga frumkvæði að, eða hafa milligöngu um, óumbeðin samskipti við einn eða fleiri notendur Kass (einnig þekkt sem spam).
  4. Að falsa, brjóta, breyta, skemma, trufla eða á nokkurn annan hátt, að hafa áhrif á öryggi og öryggisþætti Kass þjónustunnar í þeim tilgangi að skoða eða misnota upplýsingar sem eru þér óviðkomandi. Verðir þú var við veikleika í öryggisþáttum ber þér að tilkynna Kass án tafar um slíka uppgötvun.
  5. Að brjóta höfundarrétt Kass.
  6. Neita að staðfesta auðkenni þitt eða aðrar upplýsingar sem þú veitir okkur.

 

Ef þú, að okkar mati, gerist sekur um eitthvert framangreindra atriða, áskiljum við okkur rétt til að rifta samningi þessum og loka aðgangi þínum án fyrirvara.

7. Öryggi peningasendinga innan kerfis

7.1 Auðkenni
Það er á ábyrgð notanda að halda upplýsingum um auðkenni, lykilorð og annað sem snýr að auðkenningu og öryggismálum fyrir aðgang sinn leyndum. Allar peningafærslur sem hafa verið staðfestar með notkun réttra öryggis- og auðkennisupplýsinga mun vera taldar gildar og samþykktar af notanda. Ef annar aðili, hefur aðgang að þessum upplýsingum og tekst að komast í gegnum allar auðkennis- og öryggisathuganir, áskilur Kass sér rétt til að líta svo á að aðgerðir sem kunna að vera framkvæmdar séu samþykktar af notanda og ábyrgjumst við ekki tjón sem af hlýst.

Ef símtækið, sem notandi hefur til umráða til að nýta þjónustu Kass tapast eða er stolið, eða ef öryggis- og auðkennisupplýsingar notanda eru í hættu, ber notanda að loka aðgangi sínum um leið eða tilkynna atburðinn til Kass. Sjá „Hafa samband” á vefsíðu Kass.

Ef notanda grunar að millifærsla, sem notandi hafði ekki samþykkt og átti ekki að eiga sér stað, hafi gengið í gegn, ber notanda að hafa samband við okkur án tafar, eða um leið og notandi verður þess var. Þegar notandi tilkynnir um ósamþykkta millifærslu mun starfsfólk Kass rannsaka málið strax. Ef notandi óskar þess, mun Kass beita öllum tiltækum ráðum til að rekja greiðsluna og upplýsa notanda um útkomuna.

7.2 Rannsóknir
Ef rannsóknir Kass leiða í ljós að greiðsla sem notandi hefur tilkynnt sem ranga hafi í raun, svo hafið er yfir skynsamlegan vafa, verið samþykkt og staðfest af notanda eða með réttum öryggisupplýsingum notanda, áskilur Kass sér rétt til að bakfæra leiðréttingu sem kann að hafa farið fram á grundvelli tilkynningar notanda samkvæmt lið 7.1, auk þess sem aðgangi notanda kann að verða lokað tímabundið eða varanlega, ef ástæða þykir til.

7.3 Ábyrgð
Notandi er að fullu ábyrgur fyrir allri vöru eða þjónustu sem notandi kaupir eða selur þar sem þjónusta Kass er nýtt sem milliliður.

Notandi ber ábyrgð á þeim viðburðum sem hann stofnar.

 

Kass ber ekki ábyrgð á því að endurgreiðslum þar sem Kass er nýtt sem milliliður.

Notandi viðurkennir og samþykkir að allar greiðslur eru óafturkræfar ef auðkenni notanda hefur verið notað til staðfestingar.  

8. Persónuvernd

8.1 Persónuverndarstefna
Með samþykki notkunarskilmála Kass samþykkir notandi persónuverndarstefnu Kass sem telst hluti af þessum skilmálum og er ávallt aðgengileg á vefsvæði Kass, sjá „Persónuverndarstefna”. Persónuverndarstefnan inniheldur upplýsingar um öryggismál Kass og meðferð persónuupplýsinga. Kass áskilur sér rétt til að uppfæra persónuverndarstefnuna og er ávallt sú útgáfa í gildi sem er aðgengileg á hverjum tíma í vefsíðu Kass.

Sjá nánari upplýsingar um persónuverndarstefnu.

8.2 Upplýsingar um notkun og vinnsla gagna
Með samþykki notkunarskilmála Kass er Kass heimilt að vinna úr og greina upplýsingar um hegðun notenda og notkun þeirra á appinu. Meðal annars, en ekki takmarkað við, upplýsingar um fjölda færslna, fjárhæðir, tegund færslna (hópar eða einstaklingar) og svo framvegis. Slíkar upplýsingar verða ekki afhentar þriðja aðila og verða eingöngu notaðar til að þróa þjónustu og virkni Appsins.

9. Samþykki

Notandi viðurkennir og samþykkir að:

  1. Þegar notandi á í samskiptum við þjónustuaðila Kass, hvort sem það er símleiðis, í gegnum tölvupóst eða á annan hátt, kunna slík samskipti að vera tekin upp og/eða skrásett vegna öryggisráðstafana og til að upplýsa um atvik.
  2. Til að sannreyna auðkenni notanda fyrir öðrum notendum, eru eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar öðrum notendum sem notandi hefur tengst í kerfinu: Fullt nafn, notendanafn og andslitsmynd sem notandi hefur valið.
  3. Þegar notandi greiðir til lokaðs eða opins viðburðar hafa skipuleggjandi og, ef við á, aðrir þátttakendur í viðburði aðgang að upplýsingum um að notandi hafi tekið þátt, hversu mikið notandi hefur greitt til viðburðar og að slíkar upplýsingar eru alfarið á ábyrgð skipuleggjanda viðburðar.
  4. Allar þær upplýsingar sem þú gefur öðrum notendum eða færð frá öðrum notendum, í gegnum þjónustuna, eru trúnaðarmál og munu eingöngu vera notaðar í tengslum við þjónustu Kass. 

10. Hugverkaréttindi Kass

Allt innihald apps og vefsvæðis Kass, þar með talið vörumerki, texti, hönnun, grafík, ljósmyndir, myndir og ritstýrt efni er varið höfundarétti. Notanda er ekki heimilt að nýta sér upplýsingar eða efni af vefsíðu eða appi Kass í neinum tilgangi nema til persónulegra nota í samræmi við skilmála. Dreifing, fjölföldun og endurútgáfa á höfundavörðu efni Kass er með öllu óheimil.

11. Tilkynningar

Kass hefur leyfi til að senda notanda tilkynningar með rafrænum hætti á það netfang og símanúmer sem notandi hefur gefið upp í tengslum við þjónustuna. Kass reynir að tryggja að allar tilkynningar berist notanda fljótt og örugglega en ábyrgist þó ekki að tilkynningar komist rétt og tímanlega til skila. Kass ber enga ábyrgð á og er ekki skaðabótaskylt vegna þeirra tilkynninga sem Kass kann að senda notanda, hvorki vegna innihalds né vegna þess að tilkynningar berast ekki á réttum tíma. Notanda ber að tilkynna Kass, án tafar, ef breyting verður á ofangreindum upplýsingum.

12. Breytingar á skilmálum

Kass hefur heimild til að breyta ákvæðum í þessum skilmálum með mánaðarfyrirvara nema aðkallandi aðstæður krefjist skemmri tímafrests, sem dæmi má nefna breytingar vegna fyrirmæla samstarfsaðila Kass, kröfur eftirlitsaðila eða lagabreytingar. Breytingar sem kunna að vera gerðar á skilmálum þessum skulu vera tilkynntar á tryggan hátt í tölvupósti eða á vefsvæði Kass ásamt slóð (tengli) á nýja notkunarskilmála og upplýsingar um hvenær þeir taki gildi. Ef notandi kýs að samþykkja ekki breytta skilmála Kass, mun notandi ekki lengur geta nýtt sér þjónustuna og verður gefinn kostur á að loka reikningi sínum. Ef notandi heldur áfram notkun á Kass þjónustunni, eftir að nýir skilmálar hafa tekið gildi, verður litið svo á að notandi hafi samþykkt gildandi skilmála. Kass er aldrei skuldbundið til að veita notanda þjónustu.

13. Lög og varnarþing

Skilmálar þessir lúta íslenskum lögum og lögsögu. Þó Kass nýti ekki þann rétt sem af þessum skilmálum kann að leiða, þýðir það ekki að Kass hafi afsalað sér slíkum rétti.

Gildistími

Skilmálar þessi gilda frá 20. október 2017

Ábyrgðaraðili: Íslandsbanki hf. , kt. 491008-0160. Kirkjusandi 2, 155 Reykjavík